Höfði heimsækir Ræsi

Höfði heimsækir Ræsi

  • 09.12.2007

Það hefur löngum verið stefna okkar Höfðafélaga að hafa klúbbstarfið sem fjölbreytilegast og skemmtilegast. Skemmtilegur liður í þeirri viðleitni var þann 29. nóvember síðastliðinn en þá heimsóttum við hið rótgróna fyrirtæki Ræsi hf. að Krókhálsi 11.
Á móti okkur tók einn félaga okkar, Guðjón Magnússon verkstæðisformaður. Það voru 21 félagi auk 2ja gesta sem fóru í þessa heimsókn.
Það er skemmst frá því að segja að móttökurnar voru höfðinglegar. Safnast var saman í sýningarsal fyrirtækisins þar sem Guðjón skenkti mönnum fordrykki af kappi. Þegar menn höfðu vætt kverkarnar og skoðað nokkra nýja bíla (auk Mözdu 616 árg. 1973), sem Ræsir selur og þjónustar, rakti Guðjón sögu fyrirtækisins og í hverju starfsemi þess felst. Þau voru mörg fróðleikskornin sem við félagarnir skoluðum niður með fordrykkjunum.
 
Ræsir er fjölskyldufyrirtæki, stofnað 1942. Fyrirtækið hefur alla tíð síðan þjónað landsmönnum dyggilega. Innflutningur og sala nýrra bíla og varahluta frá ýmsum framleiðendum hefur verið uppistaðan í starfseminni, auk viðgerðarþjónustu og sölu á notuðum bílum. 
 
Þegar Guðjón hafði lokið máli sínu, stilltu menn sér upp til myndatöku. Að henni lokinni hófst skoðunarferð undir leiðsögn Guðjóns um þessi glæsilegu, nýju húsakynni. Skoðuðum við ýmis tæki og tól sem prýða nútíma bifreiðaverkstæði og bílaþjónustustöðvar. Í máli Guðjóns kom m.a. fram að tölvur gegna æ viðameira hlutverki í bílum í dag. Viðgerðir felast því stundum í uppfærslu á tölvukubbum sem hægt er að beintengja við höfuðstöðvarnar í Þýskalandi. Það er því liðin tíð að bifvélavirkjar notist einvörðungu við topplyklasett og skrúfjárn við störf sín. Tvisturinn góði er því væntanlega að hverfa og hvítir hanskar að koma í staðinn.
 
Að skoðunarferðinn lokinni lá leið okkar upp í matsal fyrirtækisins. Forseti, Kristinn Kristinsson, þakkaði móttökurnar og kynnt var dagskrá komandi jólafundar. Að þessu sinni verður hann á veitingastaðnum Ránni í Rekjanesbæ. 
 
 
Að þessum formlegheitum loknum settust menn að snæðingi. Í boði var "smörrebröd" af ýmsum stærðum og gerðum. Brauðinu var að sjálfsögðu skolað niður með þeim drykkjum sem í boði voru.
Vel mettir af veitingum í föstu og fljótandi formi og ýmsum fróðleik um bíla, fóru menn út í myrkrið, rokið og rigninguna og héldu heim á leið.