Eimskip kostar hjálmaverkefni Kiwanis næstu þrjú árin

Eimskip kostar hjálmaverkefni Kiwanis næstu þrjú árin

  • 19.11.2007

Kiwanishreyfingin, Eimskip og Safalinn hafa gert samning til næstu þriggja ára um kaup og dreifingu á hjálmum til allra barna í fyrsta bekk grunnskóla landsins. Áætlað markaðsvirði samningsins er um 20 milljónir króna. 

Undanfarin fjögur ár hafa Eimskip og Kiwanishreyfingin gefið öllum börnum í fyrsta bekk grunnskólanna hjálm, til nota á reiðhjólum, hlaupahjólum, línuskautum og hjólabrettum. Hátt í 20 þúsund börn hafa notið góðs af þessari gjöf Eimskips og Kiwanis og hafa þeir nú þegar sannað gildi sitt. Dæmi eru um að hjálmarnir hafi bjargað lífi barna sem lentu í slysi en notuðu hjálminn. Áhersla hefur verið lögð á að velja vandaða hjálma, en þeir eru af Atlas Rockskipper-gerð frá Safalnum.

„Kiwanishreyfingin er ákaflega þakklát góðum stuðningi Eimskips og við fögnum þessum samningi. Kiwanishjálmarnir hafa vakið verðskuldaða athygli á heimsvísu innan hreyfingarinnar. Það fellur líka mjög vel að alheimsmarkmiðum Kiwanis, sem er að hjálpa börnum heimsins," sagði Gylfi Ingvarsson umdæmisstjóri Kiwanis.

„Eimskip leggur mikla áherslu á öryggismál í allri starfsemi sinni og mikilvægt er að fyrirtæki eins og Eimskip styðji framtak á borð við hjálmaverkefnið. Um 20 þúsund börn hafa nú fengið slíka hjálma og má gera ráð fyrir að á næstu þremur árum bætist annar eins fjöldi við," sagði Guðmundur Davíðsson forstjóri Eimskips á Íslandi.

Við undirritunina voru, f.v. sitjandi: Þorvaldur Ólafsson Safalnum, Guðmundur P. Davíðsson forstjóri Eimskips á Íslandi, Gylfi Ingvarsson umdæmisstjóri Kiwanis og Andrés Hjaltason fráf. umdæmisstjóri Kiwanis. Standandi f.v.: Óskar Guðjónsson erlendur ritari Kiwanis, Guðbjörg Ingvarsdóttir verkefnastjóri í markaðsdeild Eimskips, Matthías G. Pétursson kjörumdæmisstjóri Kiwanis og Guðmundur Oddgeir Indriðason formaður hjálmaverkefnis Kiwanis.


Nánari upplýsingar gefur: Gunnar Kr. Sigurjónsson í síma: 861 3404