Svavar Svavarsson minning !

Svavar Svavarsson minning !


Látinn er góður vinur og samstarfsfélagi innan Kiwanishreyfingarinna til margra ára, en Svavar varð bráðkvaddur langt um aldur fram, að Skálm í Álftaveri en þar líkaði honum lífið vel og dvaldi þar við öll tækifæri við veiðar og uppbyggingu á húsi sínu og nærumhverfi, en Svavar var mikill útivistarmaður og afrekaði það m.a að hjóla umhverfis landið ásamt því að fara á fjöll og stunda allskyns veiðar. Svavar var viðskiptafræðingur að mennt og vann störf tengd þeirri mentun en seinni ár tók hann að sér smíðakennslu í Hraunvallarskóla í Hafnarfirði og ekki leiddist honum að vera innan um börnin og fólk almennt enda mikill öðlingur og félagsvera.
Svavar var mikill Kiwanismaður og var

öflugur í starfi í sínum klúbbi Hraunborgu í Hafnarfirði og það kom oft fram í máli hanns hversu stoltur hann var af sínum klúbbi og félögum, sem misst hafa mikið við fráfall Svavars. Kiwanisfjölskyldan hefur einnig misst mikið þar sem Svavar var öflugur í starfi hjá Kiwanisumdæminu Ísland – Færeyjar þar sem hann ljáði krafta sína í mörg ár. Þegar ég tók að mér starf Umdæmisstjóra starfsárið 2019 - 2020  þá fékk ég Svavar til liðs við mig sem umdæmisféhirði, en hann hafði stýrt fjármálum umdæmisins áður og samtals gegndi hann embætti féhirðis fjögur starfsár frá 2018 til 2022 og einnig var Svavar svæðisstjóri Ægissvæðis 2015-2016. Svavar gegndi þessum embætti af mikilli samviskusemi og alúð. Við Svavar fórum nokkurar embættisferðir saman og þar af eina til Prag og var alltaf gaman að hafa hann sér við hlið með sinn sérstaka og skemmtilega húmor og gamansemin alltaf í hávegum höfð, en það tók mann smá tíma að ná húmornum þar sem honum stökk stundum ekki bros, og gat verið grafalvarlegur í fasi þetar hann var að gera að gamni sínu.
Þar sem ég bý í Vestmannaeyjum vorum við félagarnir oft í símasambandi og oftar en ekki þegar hann hafði dvalið að Skálm og var á vesturleið heim í Hafnarfjörðin þá hringdi hann í mig við Markafljótsbrú og sagði með sínum skemmtilega róm ¨Hæ sérðu mig ekki ég er að veifa þér¨og svo hló hann og við tókum létt spjall. Elsku vinur nú kveðjumst við í bili en tökum upp þráðinn aftur í sumarlandinu, fjölskyldu Svavars vil ég senda mínar dýpstu samúðarkveðjur og megi Guð styrkja ykkur í sorginni en minnning um góðan föður og vin lifir.
 
Tómas Sveinsson.