K-dagsþankar umdæmisstjóra

K-dagsþankar umdæmisstjóra


Það fer ekki milli mála að K-dagar eru hafnir. Kiwanishreyfingin stendur enn á ný í ströngu.  Spennan stigmagnast og tekur á sig ýmsar birtingarmyndir. Lokahnykkurinn, lokaátakið framundan.  Nú skal láta sverfa til stáls og K-lykill seldur sem aldrei fyrr. Klúbbarnir skipuleggja sig , hjálparfólk er sett í viðbraðgsstöðu. Menn eru stressaðir og missa sig aðeins í posamálum, ekkert má vanta.  

 

Tilfinningin fyrir söluvörunni er góð, frábær hugmynd sem hittir í mark.  Klúbbar skora hverjir á aðra og leggja metnað fremur en mannorð undir góða frammistöðu félaganna. Brúnin léttist á eldri kempum, reynsluboltum sem margir hafa staðið í eldlínunni frá upphafi. Allir með hugmyndir og sitja ekki á þeim. Ótalmargar skemmtilegar sögur eru sagðar og hlegið dátt.

K-dagsnefnd stendur vaktina á háaloftinu á Engjateignum. Hér úir og grúir af lyklum, spjöldum,  pokum og kössum svo varla sést í formannsgreyið.  Skipulagt kaos?  Fyrrverandi innrammaðir umdæmisstjórar fylgjast kankvísir og svarthvítir með af veggjunum umhverfis og hugnast atgangurinn mæta vel. Menn minnast forsögunnar, frumkvöðlanna, hulusviftingar fordómanna og stórvirkjanna. 

Forsetinn býður í pönnsur á Bessastöðum. Þangað strunsar prúðbúið lið. Ólafur kaupir að sjálfsögðu nokkar lykla, en fær þann fyrsta í ramma. Engin Doritt : (  Skyldu fjölmiðlar láta sjá sig.  Jú við fáum 20 sekúndur í aðalfréttatímanum. Umdæmisstjóraræflinum fleygt í djúpu laugina. Baðar sig andartak í Laugardalslaug með besta sundfólki landins. Lykilsund Kiwanis og Sundsamabandsins er sett á flot. Palli glottir á bakkanum og dreifir auglýsingablöðum. Selur lykla sem óður væri. Umbinn treður marvaðann. Fær vippamynd með spengilegu sundfólkinu.  Aðrar 20 sekúndur í kassanum!!!

K-dagsnefndin hefur unnið frábært undirbúningsstarf.  Gylfi og Páll fimmti fara stórum í  morgun-  og síðdegisþáttunum ljósvakamiðlanna. Dagblöð og rafmiðlar skarta K-dags auglýsingum og auglýsingar og borðum. Glæsileg sjónvarpsauglýsing er aftur og aftur sýnd á mesta áhorfstíma. Fésbókin notuð til að breiða út boðskapinn og örva sölu.  „Lækin“ hrannast upp. Það er drift í hlutum og jákvæðni allsráðandi.  Þjóðin er meðvituð og veit hvað er í vændum. Gerum alla meðvirka í þágu málstaðarins. Jarðvegurinn er frjór fyrir hámarksárangur. Orðin eru uppurin – nú eru það athafnirnar sem gilda.  Ábyrgðin á árangri K-dags er okkar – okkar allra.