Hekla styrkir Úkraínusöfnun Rauða krossins.

Hekla styrkir Úkraínusöfnun Rauða krossins.


Kiwanisklúbburinn Hekla boðaði til almenns fundar fimmtudaginn 24. Mars í sal Drúída í Mjódd. Þema fundarins var tengt stríðsátökunum í Úkraínu og aðstoð við flóttafólk, einkum börn, sem þaðan hafa flúið til Íslands. Hekla var með fjáröflun á Lambaréttadegi, sem haldinn var í lok Febrúar og höfðu stjórn og styrktarnefnd klúbbsins ákveðið að afrakstri þess kvölds skyldi að stórum hluta varið til styrktar Úkraínskum börnum á flótta til Íslands. Það var síðan niðurstaða styrktarnefndar að úthluta af þessu tilefni styrk til Úkraínusöfnunar Rauða kross Íslands og var fulltrúa Rauða krossins boðið á almennan fund Heklu, þar sem afhent var gjafabréf fyrir

einni milljón króna til söfnunar þeirra. Björg Kristjánsdóttir, kynningafulltrúi Rauða krossins veitti gjafabréfinu viðtöku og færði klúbbnum þakkir um leið og hún flutti okkur fróðlega kynningu á starfsemi Rauða krossins.

Annar gestur fundarins var Valur Gunnarsson, sagnfræðingur, sem á síðastliðnu hausti gaf út bókina Bjarmalönd og er m.a. um sögu þeirra landa sem nú takast á í stríði við Svartahaf. Flutti Valur okkur fróðlegt erindi um sögu Úkraínu og bakgrunn þeirra átaka sem nú eiga sér stað í framhaldi af innrás Rússa í Úkraínu. Var gerður góður rómur að erindi Vals, sem þótti upplýsandi um þetta mál og vakti áhuga manna þannig að margir urðu til að kaupa af honum bókina svo þeir mættu kynna sér frekar bakgrunn þeirra deilna sem þarna eiga sér stað.

Birgir Benediktsson, forseti Heklu, Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og Björg Kristjánsdóttir, kynningarstjóri Rauða kross Íslands.