Fréttabréf Kiwanisklúbbsins Heklu.

Fréttabréf Kiwanisklúbbsins Heklu.


Ágæta Kiwanisfólk, þetta starfsár byrjaði vel og við Heklufélagar náðum í september að hafa tvo fundi, skýrsluskilafund og stjórnarskiptafund. Það var ákveðið að hafa sömu stjórn 2020-2021. 
Ýmislegt höfum við reynt að gera í þessu ástandi. Í ágúst gáfum við Hrafnistu við Laugarás æfingarhjól (THERA- Trainer Tigo 558 Handa- og fótahjól, rafmagns). Verðmæti kr. 840.000,
Ekki gátum við afhent hjólið formlega, söluaðilinn sendi það til þeirra og fór það strax í notkun og verður formleg afhending síðar.
Hinn árlegi Lambaréttadagur hjá okkur Heklufélugum er alltaf í október en við þurftum að hætta við hann. Undirbúningur gekk vel og búum við að því næst þegar við höldum hann, í október 2021. 
Það var ákveðið að boða ekki til hefðbundinna funda í þessu ástandi. Menn ræddu

saman í síma og á annan hátt.

Þegar nálgaðist jól fórum við eins og venjulega og heimsóttum vistheimilið Bjarg með jólagjafir og nammi í poka. Þarna eru nú sjö vistmenn. Þetta höfum við Heklufélagar gert í nokkra áratugi. Bjarg er vistheimili fyrir geðfatlaða einstaklinga og hefur verið starfrækt síðan 1968.

20. desember s.l lést félagi okkar Hafsteinn Guðjónsson. Hann fæddist 8. febrúar 1927 og var því 92 ára þegar hann lést. Hafsteinn gekk í Kiwanisklúbbinn Heklu 10. desember 1968 og hefur því verið Kiwanisfélagi í 52 ár. 13. desember 2018 var hann sæmdur 50 ára gullstjörnu klúbbsins. Hafsteinn var ötull og áhugasamur Kiwanisfélagi, hann var einn af stofnfélögum Nesklúbbsins sem var stofnaður 1971. Hafsteinn var þar forseti 1979-1980 og aftur 1998-1999, auk annarra embætta sem hann var valinn til og hann sá meðal annars um uppsetningu á Kiwanisklukkunni á Eiðistorgi. Einnig má þakka honum sérstaklega fyrir aðkomu hans við byggingu Kiwanishússins við Engjateig, með dyggum stuðningi. Hafsteinn gekk aftur í Heklu þegar Nes klúbburinn var sameinaður Heklu 2006.

Við Heklufélagar þökkum Hafsteini fyrir öll þau störf sem hann innti af hendi fyrir klúbbinn og Kiwanishreyfinguna.

Á Gamlársdag hittumst við nokkrir félagar heima hjá Sighvati forseta klúbbsins og voru nokkur félagsmál rædd, ásamt því að ræða ýmiss önnur mál og var af nógu að taka. Skálað var fyrir nýju ári og það gamla kvatt.

 


Á þrettándanum 6. janúar sl. Stóðum Heklufélagar fyrir flugeldasýningu við Hrafnistuheimilin í Reykjavík og Hafnafirði. Björgunarsveitin Ársæll sá um flugeldasýninguna og var þetta í 30 skiptið sem sýning er haldin. Nú tókst sýningin einstaklega vel, í góðu veðri og var ekkert til sparað í flugeldum hjá Björgunarsveitinni. Íbúar heimilanna komu út og einnig var verið í öllum gluggu. 
Nú nýlega var haft var samband við Sighvat forseta Heklu frá Tallahassi á Flórída í USA, þar sem móðurklúbbur Heklunnar er. Þeir hafa haldið nokkra zoom fundi hjá sér í þessu covide ástandi. Nú buðu þeir okkur að taka þátt í fundi með sér og verður hann 1. febrúar nk. Kl. 17:00. Þetta er kannski eitthvað sem við getum notað í framtíðinni og einhverjir klúbbar nota í dag. Ýmislegt er framundan hjá okkur, styrkveitingar o.fl. Vonandi verður hægt að halda eðlilega fundi þegar líður á janúar og febrúar.

Heklufélagar óska Kiwanisfólki gleðilegs árs og þakka fyrir það gamla.

Birgir Benediktsson ritari Heklu