Kiwanisklúbburinn Þyrill fimmtíu ára

Kiwanisklúbburinn Þyrill fimmtíu ára


Kiwanisklúbburinn Þyrill á Akranesi verður fimmtugur á sunnudaginn, 26. janúar. Af því tilefni verður haldinn opinn fundur á Gamla Kaupfélaginu á milli klukkan 15 og 17 á sjálfan afmælisdaginn. Þar verður í bland við hefðbundin fundarstörf afhentar viðurkenningar til stofnfélaga en enn eru sex stofnfélagar í klúbbnum. Þá verður einnig afhent vegleg gjöf til góðs málefnis. Fundurinn er opinn öllum velunnurum Kiwanesklúbbsins Þyrils.
Stefán Lárus Pálsson, forseti Kiwanesklúbbsins Þyrils, segir í samtali við Skessuhorn að tilgangur klúbbsins hafi alltaf verið fyrst og

og fremst að láta gott af sér leiða í samfélaginu. „Við höfum í gegnum tíðina safnað óhemju miklum peningum og gefið til mannúðarmála. Okkar markmið hefur alltaf verið að gera samfélagið okkar betra, við höfum gullnu regluna að leiðarljósi, það sem þú vilt að aðrir gjöri ykkur skalt þú þeim gjöra,“ segir Stefán.
Síðustu fimmtíu ár hefur Kiwanisklúbburinn Þyrill lagt ýmsum málefnum í samfélaginu lið og má þar nefna sem dæmi að klúbburinn keypti fyrsta bílinn fyrir verndaðan vinnustað á Akranesi og keypti því næst allar innréttingar, stólafestingar og slíkt, í bíl númer tvö. Þá hefur Sjúkrahúsið á Akranesi notið góðs af ýmsum styrkjum frá klúbbnum og má þar nefna sneiðmyndatæki sem klúbburinn lagði töluverða fjármuni til svo hægt væri að kaupa. Félagar í klúbbnum hafa í gegnum árin tekið að sér ýmsa vinnu til fjáraflanir og má þar nefna strandhreinsun, málningarvinnu og fleira. Þá tóku félagar Kiwanisklúbbsins Þyrils að sér gamla vitann á Breiðinni og gerðu hann upp þegar hann var að hruni kominn.
Náinn hópur
„Við höfum komið víða við og í gegnum árin skiptir það mörgum tugum milljóna á núvirði það sem við höfum lagt til samfélagsins okkar,“ segir Stefán. Stofnfélagar Kiwanisklúbbsins Þyrils voru þrjátíu talsins og svo vill til að um síðustu áramót voru félagarnir einmitt þrjátíu. „Það reyndar sagði sig einn úr félaginu sökum aldurs núna eftir áramót. Flestir höfum við verið 56 en alls höfum við virkjað 113 númer á þessum fimmtíu árum,“ segir Stefán. Spurður hvort fleira verði gert til að fagna afmæli klúbbsins segir Stefán að í maí á þessu ári ætli meðlimir og konurnar þeirra að fara saman í ferðalag af þessu tilefni. „Við ætlum að fara eitthvað út fyrir bæinn og skemmta okkur sjálfum, en hversu langt við förum er ekki enn ákveðið,“ segir Stefán og bætir því við að hópurinn sé mjög náinn og því myndist hálfgerð fjölskyldustemning þegar allir hittast.
„Ég er gríðarlega þakklátur öllum bæjarbúum og öðrum sem hafa lagt okkur lið með einum eða öðrum hætti í gegnum árin. Við höfum lagt okkur fram við að skila því til baka til samfélagsins í formi góðgerðarmála. Ég er glaður að geta orðið að liði í samfélaginu mínu, þó ég vildi oft að ég gæti gert meira,“ segir Stefán að endingu.


www.skessuhorn.is greindi frá