Samstarf á bjargi byggt !

Samstarf á bjargi byggt !


Dagana 20. – 22. september var Umdæmisþing Kiwanisumdæmisins Ísland/Færeyjar haldið í Hafnafirði. Kiwanishreyfingin hefur um árabil tileinkað sér kjörorðið ,,Hjálpum börnum heimsins“ og hefur Kiwanis á Íslandi einsett sér að vinna eftir því kjörorði. Höfum við lagt margt að mörkum til að gera líf barna betra og öruggara í samfélaginu.
Eitt aðalverkefni Kiwanishreyfingarinnar á Íslandi hefur verið að gefa öryggishjálma á börn er byrja í fyrsta bekk grunnskóla ár hvert. Verkefni þetta byrjaði á Akureyri 1991 er Kiwanisklúbburinn Kaldbakur fór að gefa börnum á Akureyri hjálma. Ári síðar tóku Kiwanisklúbburinn Drangey á Sauðárkróki og Ós á Höfn að gera slíkt hið sama.
Fleiri klúbbar fóru síðan að gefa hjálma einnig en það var síðan árið 2004 að þetta var gert að landsverkefni Kiwanishreyfingarinnar og þá var gengið til samstarfs við Eimskipafélag Íslands um að styrkja verkefnið með hjálmagjöfum. Samningur sá var mikið heillaspor og stendur enn og á Eimskipafélagið miklar þakkir skildar fyrir þann hug og elju er þau leggja í að bæta öryggi barna í leik og starfi.
Á liðnu hausti var ljóst að Kiwanis hafði þegið 60.000 hjálma úr hendi Eimskips á 15 árum og á liðnu vori var

sú tala komin í nærri 65.000.
Það eru ákveðin forréttindi að starfa við þetta verkefni með því góða fólki hjá Eimskip og vart hægt að bera nægt þakklæti á þeirra borð fyrir framlag þeirra.
Það var því á liðnu Umdæmisþingi að þau Sæunn Sunna Samúelsdóttir og Guðmundur Viðarsson, starfsfólk Eimskips, voru boðuð á þingið til að taka við þakklætisvotti fyrir hönd fyrirtækisins fyrir þeirra göfuga starf.
Gjöfin var táknræn þar sem samstarfið hefur verið á bjargi byggt frá upphafi og fékk formaður hjálmanefndar umdæmisins Aðalstein Maríusson, múrarameistara og steinsmið á Sauðárkróki, að gera gjöfina og síðan sá Þröstur Magnússon hjá Myndun á Sauðárkróki um að prenta textann á steininn. Það var hjartfólgin og ánægjuleg athöfn er þessum fulltrúum Eimskips var afhent gjöfin.
Þess má geta að vel rúmlega 85.000 börn á Íslandi hafa fengið hjálm úr hendi Kiwanis frá upphafi og nú sl. tvö ár höfum við einnig, í samstarfi við Eimskip, hafið að gefa börnum á Grænlandi hjálma.
Við sendu stjórnendum Eimskips og samstarfsaðilum okkar þeim Sæunni Sunnu og Guðmundi Viðarssyni þakkir og hlökkum til að starfa með þeim í komandi framtíð.
Ólafur Jónsson Kiwanisklúbbnum Drangey formaður hjálmanefndar Kiwanisumdæmisins Ísland/Færeyjar sl. fjögur ár.