Kiwanisklúbburinn Ölver og Grunnskólinn í Þorlákshöfn gera samstarfssamning Ágóði af jólaskókassa rennur til nemendaferða

Kiwanisklúbburinn Ölver og Grunnskólinn í Þorlákshöfn gera samstarfssamning Ágóði af jólaskókassa rennur til nemendaferða


Á haustdögum komu nokkrir Kiwanismenn til fundar við skólastjórnendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn. Tilgangurinn var að finna vettvang til að styðja á jákvæðan hátt við unglinga í skólanum.
Afrakstur fundarins var samningur sem ritað var undir fimmtudaginn 31. október. Samstarfssamningurinn felur í sér að Kiwanismenn láta ágóða af sölu jólaskókassa renna til heilla fyrir nemendur í unglingadeild Grunnskólans í Þorlákshöfn. Jólaskókassinn hefur verið í sölu nú í nokkur ár en í kassanum má finna skemmtilegar litlar gjafir sem henta vel fyrir jólasveina.

Í samningnum er kveðið á um að Kiwanisklúbburinn beri kostnað af einni nemendaferð á hverju skólaári. Skipulag og undirbúningur ferðanna verði  í samvinnu kennara og klúbbsins. Skólinn sendir kennara með í ferðirnar en einnig fara Kiwanismenn með. Annað hvert ár verður farið í menningarferð t.d. leikhús, bíó, fyrirlestur eða eitthvað slíkt. Hitt árið verður farið í dagsferð í Þórsmörk, náttúruskoðun og útivistarferð. Tilgangur ferðanna er að stuðla að jákvæðri samveru og upplifun fyrir unglinga, samheldni hópsins og heilsusamlegu líferni.
Fyrsta ferðin var farin nú í október en þá var farið í bíó  að sjá myndina Lof mér að falla. Framleiðendur kvikmyndarinnar ræddu einnig við krakkana eftir sýningu og þessa dagana vinna nemendur ýmis forvarnarverkefni í skólanum undir handleiðslu kennara.


Samstarfssamningurinn er afar jákvæður en nemendaferðir sem þessar gefa tækifæri til margs konar verkefna í námi og starfi auk þess að stuðla jákvæðum samskiptum. Þá fellur samningurinn afar vel að markmiði Kiwanishreyfingarinnar en slagorð Kiwanis er einmitt: Við þjónum börnum heimsins.

Meðfylgjandi mynd er tekin við undirritun samningsins:
Þórarinn Gylfason formaður fjáröflunarnefndar, Þráinn Jónsson forseti Kiwanisklúbbsins Ölvers, Ólína Þorleifsdóttir skólastjóri, Þrúður Sóley Guðnadóttir varaformaður nemendaráðs og Helga Ósk Gunnsteinsdóttir formaður nemendaráðs