Allt á fullu hjá Kiwanisklúbbnum Ós

Allt á fullu hjá Kiwanisklúbbnum Ós


Starfsárið 2016-2017 hefur verið skemmtilegt og líflegt hjá Kiwanisklúbbnum Ós. Starfsemin hófst á stjórnaskiptafundi í Pakkhúsinu þar sem Haukur Sveinbjörnsson umdæmisstjóri Kiwanisumdæmisins Ísland-Færeyja kom og sá  um stjórnarskiptin, en hann er fyrsti félagi í Ós sem hefur embætti umdæmisstjóra. Honum til aðstoðar var umdæmisritari Sigurður Einar Sigurðsson félagi í Ós. 
Í október var K-lyklasala Kiwanis um land allt og fékk Ós fimleikadeild Sindra til að

aðstoða sig við söluna. Ekkert jólahlaðborðið var að þessu sinni en í þess stað var haldin þrettándagleði í Golfskálanum og tókst hún með ágætum. Í lok árs tók við skógarhögg og jólatrésala undir forystu formanns jólatrésnefndar Geirs Þorsteinssonar.  Jólatréssalan salan gekk ágætlega og veitt var fé til tíu bágstaddra fjölskyldna um jólin í samstarfi við Nettó. 
Á þessu starfsári hefur Ós veitt marga styrki úr styrktarsjóð sínum um rúmlega eina milljón króna. Heilbrigðisstofnun Suðausturslands HSU fékk fé til kaupa á HuntLeigh tæki til að mæla hjartaslátt á ófæddum börnum. Styrkur var veittur uppí kaup á stjörnusjónauka. Fimleikadeild Sindra fékk styrk. Ós hefur styrkt Kiwanis Children's Fund um 2.000 dollara en Barnasjóður Kiwanis hjálpar börnum um allan heim gegnum verkefni sem Kiwanis styrkir. Þar á meðal er stórt verkefni sem UNICEF er með í samstarfi með Kíwanis til eyða Maternal and Neonatal Tetanus (MNT) / stífkrampa. 
 

Hin árlega Groddaveisla var haldin um miðjan mars í Sindrabæ. Haukur Sveinbjörnsson umdæmisstjóri og svæðisstjóri Sögusvæðis Jóhann V. Sveinbjörnsson mættu og skemmtu sér með félögum sínum. Veislan hófst á því að teknir voru inn tveir nýir félagar. Á boðstólum var saltað sauða- og hrossakjöt og grillað hvalkjöt sem snilldargrillarinn Stefán Brandur Jónsson hantéraði. Þá var uppboð á listaverkum og er það í þriðja sinn sem það er gert. Vel safnaðist í styrktarsjóð og er listakonunum Gingó, Lísu, Svövu og Eyrúnu þakkað en þær lögðu fram listaverk. 
Eftirfarandi fyrirtækjum er þakkað fyrir styrki og gjafir fyrir Groddaveisluna: Seljavellir, Húsasmiðjan Höfn, Martölvan, Old Airline Guesthouse, Hvalur h/f, Matís, Flugfélagið Ernir, Nettó, Húsasmiðjan, Olís, Flytjandi, N1, Ajtel Iceland ehf og Tónskóli Austur-Skaftafellssýslu. Ágóðinn af listverkauppboðinu fer í styrktarsjóð Óss. Veislustjóri var Sveinn Waage skemmtikraftur sem hélt uppi fjörinu með Groddasögum með Vestmanneyjaívafi. 
Það má því með sanni segja að starfsemi Kiwanisklúbbsins Óss hafi verið lífleg og skemmtileg á yfirstandandi starfsári. Fimm nýir félagar hafa bæst við á þessu á ári og vonast er eftir fleirum í klúbbinn á árinu.

Það er ekki hægt að halda úti öflugum klúbbi án duglegra kiwanisfélaga sem eru tilbúnir að vinna fyrir klúbbinn sinn og er annt um samfélagið sem þeir búa í. En ef þú sem lest þessar línur ert tilbúinn að leggja þitt að mörkum, hafðu þá samband við næsta kiwanisfélaga og komdu á kiwanisfund og vertu með í heimshreyfingu Kiwanis. Kiwanis er alheimssamtök sjálfboðaliða sem hafa að markmiði að bæta heiminn með þjónustu í þágu barna. Upplýsingar um klúbbinn eru á https://www.facebook.com/KiwanisclubOs
Í lokin má nefna fasta liði sem eru framundan. Páskabingó verður í Sindrabæ þann 15. apríl kl 14.00 og afhending kiwanishjálma nú í apríl, en Kiwanisfélagar stefna á síðasta vetrardag þann 18. apríl að færa börnum í 1. bekk reiðhjólahjálma.

Með Kiwaniskveðjum
Ingvar Snæbjörnsson forseti Ós