Haustfréttir af starfi Kiwanisklúbbsins Þyrils.

Haustfréttir af starfi Kiwanisklúbbsins Þyrils.


Ný stjórn tók til starfa í Kiwanisklúbbnum Þyrli á Akranesi þann 1. október sl. Þar með hófst 47. starfsár klúbbsins, en hann var stofnaður árið 1970. Núverandi forseti klúbbsins er Sigursteinn Hákonarson. Fjöldi félaga er núna 30. Klúbburinn heldur fundi sína í Safnaskálanum við Byggðasafnið að Görðum.

Helsti verkefni Þyrils á þessu hausti hafa verið sala á K-lyklinum, til styrktar geðsjúkum. Að þessu sinni var sala lykilsins hér í bæ gerð í samvinnu við Foreldrafélag 3. flokks karla í knattspyrnu, sem Þyrill styrkti vegna sölunnar.

Í allmörg ár hefur klúbburinn séð um upplýsingaskilti fyrir ferðamenn, sem staðsett var við

Kalmansbraut gengt OLÍS. Að frumkvæði Akraneskaupstaðar var ákveðið að flytja skiltin á nýjan stað. Fyrir valinu varð staður rétt austan við Hausthúsatorg, gengt BÓNUS. Akraneskaupstaður stóð myndarlega að uppbyggingu á nýjum skiltum og umhverfi þeirra í góðri samvinnu við Þyril. Allar upplýsingar voru endurnýjaðar og auknar. Aðgengi að upplýsingaskiltunum er eins og best verður á kosið, greiðfært og öruggt.

Hafinn er undirbúningur að hinni árlegu flugeldasölu um áramótin. Eins og undanfarin ár standa Kiwanisklúbburinn Þyrill og Knattspyrnufélag Í.A. saman að sölunni. Eins og í fyrra mun salan fara fram að Smiðjuvöllum 17, Bíláshúsinu. Ánægjulegt er hvað bæjarbúar hafa ávalt stutt vel flugeldasöluna. Hagnaður af sölunni skiptist að jöfnu milli Þyrils og KFÍA. Hjá Þyrli rennir hann óskiptur í Styrktarsjóð klúbbsins.

Kiwanisklúbburinn Þyrill hóf afskipti af flugeldasölu fljótlega eftir stofnun hans. Í um 45 ár hefur klúbburinn selt flugelda til styrktar starfi sínu. Fá félög ef nokkur hafa selt flugelda í jafn langan tíma og Kiwanisklúbburinn Þyrill.

Það sem af er þessu ári hefur klúbburinn styrkt eftirfarandi aðila: Mæðrastyrksnefnd, fjölfatlaðan dreng og Íþróttasamband fatlaðra ásamt S.Á.Á og Bleiku fjöðrinni.

Eins og undanfarið ár munu Þyrilsfélagar dreifa reiðhjólahjálmum til 7 ára barna í Grundaskóla, Brekkubæjarskóla, Heiðaskóla og Grunnskóla Borgarness næsta vor. Með í för verður að vanda umferðarfræðslufulltrúi, sem annast mun fræðslu barnanna. Fjöldi hjálma sem dreift er í ofangreinda skóla er 130-140 s.t.k.

Kiwanisklúbburinn Þyrill óskar bæjarbúum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.