Skógarhögg hafið hjá Kiwanisklúbbnum Ós

Skógarhögg hafið hjá Kiwanisklúbbnum Ós


Á þessu starfsári heldur Kiwanisklúbburinn Ós upp á 30 ára afmæli. Starfsemin hófst á stjórnarskiptafundi í Pakkhúsinu þar sem Haukur Sveinbjörnsson umdæmisstjóri Kiwanisumdæmisins Ísland-Færeyjar kom og sá um stjórnarskiptin. Honum til aðstoðar var umdæmisritari Sigurður Einar Sigurðsson en báðir eru félagar í Ós. Þess má nefna að það sem af er ári hafa fimm nýir félagar gengið í klúbbinn. Stjórn styrktarnefndar Kiwanisklúbbsins Óss hefur samþykkt að Ós styrki tíu fjölskyldur í samstarfi viðSamfélagssjóð Hornafjarðar. Styrktarsjóður Óss gefur

200 þúsund og leggur Nettó 100 þúsund krónur á móti. Samfélagssjóður Hornafjarðar sér um að úthluta styrkjunum í jólaúthlutun sinni. 

Í lok árs tók við skógarhögg og er það Geir Þorsteinsson sem stendur í brúnni þar. Félagar fóru í skógarhögg í Miðfell til að ná í stóru jólatrén og í Steinadal til að ná í fururnar en Húsasmiðjan flytur inn normannsþininn frá Danmörku.  Bæjartréð kemur úr Hallormsstaðaskógi. Kiwanisklúbburinn Ós hefur selt jólatré á Hornafirði í góðu samstarfi við Húsasmiðjuna og Flytjanda en bæði fyrirtækin hafa styrkt söluna á ýmsan máta.

Aðalfjáröflun Kiwanisklúbbsins Óss er sala jólatrjáa og fer allur ágóði af henni til styrktarmála í héraði. Salan byrjar föstudaginn 16. desember og líkt og undanfarin ár fer salan fram við Sindrahúsið og verður opið virka daga frá 17-19 og um helgina frá 15-18. Síðasti söludagur er á Þorláksmessu.
Ég vil nota tækifærið og þakka þeim sem keypt hafa jólatré af klúbbnum gegnum tíðina og lagt sitt af mörkum til styrktarmála. Kiwanisklúbburinn Ós óskar öllum Hornfirðingum nær og fjær gleðilegra jóla og þakkar stuðninginn. Munum svo kjörorð Kiwanis: Börnin fyrst og fremst.

Forseti Kiwanisklúbbsins Óss
Ingvar Snæbjörnsson

Myndatexti
Forseti Kiwanisklúbbsins Ós Ingvar Snæbjörnsson tekur við inneignarkortum frá fulltrúa Pálma Guðmundsonar verslunarstjóra Nettó en Bjarni Snorrason vaktstjóri í Nettó afhendi kortin fyrir hönd Nettó. Með á mynd eru Sigurjón Ö. Arnarsson gjaldkeri Óss, Geir Þorsteinsson formaður Jólatrésnefndar og Kristján V. Björgvinsson verslunarstjóri Húsasmiðjunni Höfn.