Höfðafréttir

Höfðafréttir

  • 26.05.2008

Ágætu Kiwanisfélagar.
Í þessum síðasta Höfðapistli að sinni viljum við byrja á því að óska ykkur öllum gleðilegs sumars með þakklæti fyrir veturinn. Kiwanis.is þökkum við einnig samstarfið á liðnum vetri.

Í fyrri pistlum hefur verið minnst á fjölbreytileikann sem verið hefur í fyrirrúmi í starfi okkar Höfðafélaga í vetur. Þessi pistill verður á sömu nótum.
Það sem stendur uppúr í starfi okkar undanfarnar vikur, er heimsókn á Alþingi. Má með öðrum orðum segja að Höfði sé kominn á þing! Fórum við þangað í heimsókn ásamt fjölskyldum þann 17. apríl síðastliðinn. Þar tók Valgerður Sverrisdóttir fyrrverandi ráðherra á móti okkur og sýndi okkur húsakynnin og fræddi okkur um þingstarfið. Tókst Valgerði afburða vel upp með líflegum og skemmtilegum málflutningi auk þess sem hún svaraði fjölmörgum fyrirspurnum okkar. Þessi heimsókn mun því lengi í minnum höfð. Hvort einhverjir félagar hafa þetta kvöld snúist til Framsóknar skal ósagt látið.


Valgerði afhentur fáni Höfða að heimsókn lokinni.


Að sjálfögðu létum við ekki okkar eftir liggja í hjálmaverkefninu. Að þessu sinni nutum við dyggrar aðstoðar byggjendaklúbbsins í Engjaskóla. Þetta árið afhentum við 310 hjálma. Við viljum nota þetta tækifæri og þakka henni Rúnu sem haldið hefur utan um byggjendaklúbbinn frá upphafi, kærlega fyrir allt hennar mikla og góða starf.


 
Rúna, sem sér um byggjendaklúbbinn, með Kristinn forseta Höfða á hægri hönd og Valgeir kjörforseta á vinstri

 

Þann 4. maí fóru nokkrir Höfðafélagar austur að Geldingalæk en þar er rekið barnaheimili sem Höfði hefur styrkt mörg undanfarin ár. Auk ýmissa gjafa til barnanna, höfum við farið á hverju ári í kringum 1. maí í vinnuferð þangað austur. Höfum við þá lagfært ýmislegt og dyttað að. Þessar ferðir hafa verið mjög gefandi og ánægjulegar. Þetta var síðasta ferðin okkar þangað austur því ákveðið hefur verið að leggja rekstur þessa barnaheimilis niður. Það er því ljóst að við munum sakna Geldingalækjar og munum væntanlega finna annað styrktarverkefni í staðinn.