Ós og Kiwanisdúkkan.

Ós og Kiwanisdúkkan.


Kiwanisklúbburinn Ós hefur nú formlega byrjað á verkefni sem er nefnt Kiwanisdúkkan. Þetta verkefni má rekja til Færeyja en Sámal Bláhamar svæðisstjóri Færeyjasvæðis færði Hauki Þ. Sveinbjörnssyni umdæmisstjóra og Sigurði Einar Sigurðsyni umdæmisritara félögum í Ós sitt hvora Kiwanisdúkkuna fyrr á þessu ári. Kiwanisdúkkan er lítil taudúkka sem er unnin upp úr gömlum og slitnum rúmfötum frá Landssjúkrahúsinu í Færeyjum og hætt er að nota. Með dúkkunni fylgir tússpenni svo hægt sé að teikna á hana andlit. Upphaflega var tilgangurinn að gleðja veik börn sem dvöldu á sjúkrahúsum en einnig fá ung börn á Landssjúkrahúsinu í Færeyjum dúkkuna að gjöf.  Dúkkurnar eru unnar á Dugni í Fuglafirði en það er verndaður  vinnustaður og

kaupa klúbbar dúkkurnar þar. Færeyski Kiwanisklúbburinn Eysturoy byrjaði á Kiwanisdúkku verkefninu og hefur Sámal Bláhamar verið þeim til aðstoðar.

Síðustu helgina í apríl fóru nokkrir Kiwanisfélagar í vinnuferð til Færeyja. Þar á meðal voru Haukur umdæmisstjóri og Sigurður Einar umdæmisritari.  Í þeirri ferð var einnig farið í heimsókn til Dugni í Fuglafjörð til að skoða framleiðsluna á dúkkunni. Þeir Haukur og Sigurður Einar ákváðu að færa verkefnið til Hafnar og færa nýjum Hornfirðingum dúkku að gjöf. Þeir fóru síðast liðinn fimmtudag í Hafnarkirkju en þá eru haldnir þar foreldramorgnar. Nú þegar hafa 15 nýir Hornfirðingar eignast Kiwanisdúkku. Prestarnir í Bjarnanessókn munu svo afhenda foreldrum nýfæddra barna dúkku þegar þeir mæta á foreldramorgna í kirkjuna.
Þess má í lokin geta að Kiwanisklúbburinn Katla í Reykjavík og Keilir í Keflavík verið með svipað verkefni en þau byggist á því að sjúkraflutningsaðilar hafa fengið bangsa til afhenda í sjúkrabílum og dúkkum dreift á Landsspítalanum .

Mynd tekinn í Hafnarkirkju: Foreldrar og prestar veita viðtöku á Kiwanisdúkkunni í Hafnarkirkju