Fyrsti K-lykillinn afhentur !

Fyrsti K-lykillinn afhentur !


Haukur Sveinbjörnsson, Gunnsteinn Björnsson og Gylfi Ingvarsson formaður K-dagsnefndar afhentu í dag 30. september, forseta Íslands Guðna Thorlacius Jóhannessyni fyrsta K-lykilinn. Hann er verndari söfnunar K-lykilsins sem stendur frá 1.-10. október um land allt.

Um árabil hefur Kiwanishreyfingin vakið athygli á málefnum þeirra sem glíma við geðræna sjúkdóma. Einkunnarorðin „Gleymum ekki geðsjúkum“ eru flestum landsmönnum að góðu kunn. Með sölu á K-lyklinum hefur Kiwanisfélögum tekist að 

afla fjár til að efla geðvernd, eyða fordómum og leita lækninga.

Í ár vilja Kiwanisfélagar beina kröftum sínum að tveimur málefnum. Annars vegar hyggjast þeir styrkja BUGL, Barna- og unglingageðdeild Landspítala Íslands, enda brýnt að sinna vel þeim börnum og ungmennum sem glíma við geðraskanir. Hins vegar er sjónum beint að nýjum samtökum, PIETA Ísland, sem bjóða úrræði fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum og þá sem stunda sjálfsskaða. Gildi forvarna á þessum vettvangi er ómetanlegt.

Við skulum hjálpa þeim sem þurfa aðstoð í erfiðleikum sínum og veikindum. Ég hvet alla til að taka Kiwanisfólki og söluaðilum Kiwanis vel á K-daginn í ár, styðja gott málefni og bæta samfélag okkar.