Fréttir frá Höfða.

Fréttir frá Höfða.

  • 08.02.2008

Árið 2008 hófst af krafti hjá okkur Höfðafélögum. Á félagsmálafundi þann 3. janúar var aðallega farið yfir flugeldasöluna hjá okkur en sem kunnugt er, er hún okkar aðal fjáröflun og hefur verið það mörg undanfarin ár. Að þessu sinni fengum við ekki hentugt húsnæði á „Höfðanum“ eins og undanfarin ár

Sóttum við því nágranna okkar í Kópavogi heim en við fengum ákjósanlegt húsnæði við Ögurhvarf 4 til afnota. Við vorum því mjög sáttir við söluna þetta árið.  Að sjálfsögðu hafa einhverjir af okkar fastakúnnum úr Grafarvoginm ekki komið að þessu sinni en aðrir komu í þeirra stað. Húsamiðjan og Bónus voru í næsta nágrenni við okkur og nutum við örugglega góðs af því. Styrktarsjóður hefur því dálaglega upphæð til úthlutunar þetta árið.
Haldið hefur verið áfram á þeirri braut að halda annað slagið fundi utan Kiwanishússins við Engjateig og upp á síðkastið á vinnustöðum Höfðafélaga. Þessum fundum má því líkja við starfskynningar. Hefur þessi nýbreytni vakið verðskuldaða lukku enda fróðlegt og skemmtilegt að kynnast störfum og starfsumhverfi klúbbfélaganna en eins og gefur að skilja eru þau mörg og fjölbreytileg.
Þann 17. janúar sl. var almennur fundur haldinn í heimahéraði, þ.e. Borgarholtsskólanum en einn félagi okkar, Helgi Geir Sigurgeirsson, er kennari við skólann. Áður höfðum við sótt Ræsi heim. Húsakynni skólans voru skoðuð, saga hans rakin og að lokum var sest að snæðingi. Svignuðu borð undan gómsætum kræsingum sem gerð voru góð skil. Þess má geta að Höfði lagði til 500 þúsund króna stofnfé og skipulagsskrá til stofnunar ferðasjóðs til handa útskriftarnemum Starfsbrautar Borgarholtsskóla.
Eins og áður er getið er af nógu að taka þegar kemur að því að heimsækja vinnustaði Höfðafélaga og munum við félagarnir því enn leggja land undir fót. Að þessu sinni munum við heimsækja höfuðstöðvar Símans við Suðurlandsbraut. Hjörleifur Már Jónsson félagi okkar er yfirbryti hjá Símanum.
Þann 31. janúar kom svæðisstjóri Eddusvæðis, Jón Heiðarsson í Smyrli, í heimsókn til okkar. Færði hann okkur fréttir af Eddusvæði og svaraði í lokin mörgum spurningum okkar félaganna.


Húsakynni Borgarholtsskóla skoðuð


Kristinn Kristinnsson forseti Höfða afhendir Jóni Svæðisstjóra fána Höfða.